Flýtilyklar
Landsbankinn-höfuðstöðvar, Reykjavík
BANKI ALLRA LANDSMANNA
Saga Landsbanka Íslands er saga íslensku þjóðarinnar. Á 19. öldinni vaknar þjóðin til vitundar um eigið sjálf og er stofnun Landsbankans árið 1886 rökrétt framhald þess. Tilgangur bankans við stofnun var að auka viðskipti landsmanna og hefur starfsemi hans síðan verið í réttu hlutfalli við ört vaxandi velmegun þeirra.
Bygging höfuðstöðva Landsbankans er táknræn fyrir byggingar- og menningarsögu borgarinnar. Bankinn byggir sínar fyrstu höfuðstöðvar 1924, glæsibyggingu í hjarta bæjarins, byggingu sem enn þykir ein glæsilegust í höfuðborginni og skýrt tákn um menningarlega reisn bankans. Nú, árið 2007, hugar bankinn að byggingu nýrra höfuðstöðva í hjarta bæjarins í nánum tengslum við mestu uppbyggingu metnaðarfullra menningar- og þjónustumannvirkja þjóðarinnar.
Þó tímarnir séu ólíkir er uppbygging á þessu svæði í dag tákn um nýtt upphaf, ekki bara bankans, heldur þjóðarinnar allrar. Vonandi erum við loksins að byggja borg!
MARKMIÐ
- Þéttur miðbær
- Aukin verslun og þjónusta
- Íbúðir mikilvægar
- Tenging hins nýja við hið gamla
- Aukin áhersla á gangandi vegfarendur
- Þyngdarpunktar: Lækjartorg, Austurvöllur, Arnarhóll, Tónlistarhús
- Klassískt efnisval
- Smágert byggðamynstur en nútímalegt
DÝRMÆTT LAND
- 2000 bílastæði neðanjarðar – skapa gríðarlega möguleika
- Opna fyrir þróun miðbæjar að höfn
- Mynda samfellt göngusvæði frá Tjörn að Tónlistarhúsi
- Umferð í miðbæ minnkar verulega
- Vistlegur miðbær
UMFERÐ
- Meginhluti akandi umferðar milli borgarhluta í stokk
- Vistvænar götur fyrir miðbæjarumferð ofanjarðar
- Megin þungi umferðar á yfirborði í jöðrum svæðis
- Breytt umferð um Tryggvagötu, Hafnarstræti og Lækjargötu
- Gönguleiðir yfir aksturgötur sérstaklega meðhöndlaðar-gott flæði
- Góðar almenningssamgöngur – (hvenær fáum við neðanjarðarlestar?)
BYGGÐARMYNSTUR - YFIRBRAGÐ
- Brúa bil eldri bygginga og nýrra
- Taka mið af byggðamynstri Kvosarinnar
- Smáar einingar
- Endurvekja lækinn í Lækjargötu
- Samræmd, vönduð yfirborðsmeðhöndlun
- Vönduð götugögn
ARNARHÓLL
- Gera Arnarhól að megin útisamkomustað miðborgarinnar
- Byggja norðan megin hóls til að skerpa form og mynda skjól.
- Vekja upp gamlar hugmyndir um veitingastað undir Ingólfi
- Forma hluta hólsins sem sólríkt dvalarsvæði
NÝBYGGING LANDSBANKANS
AGORA REYKJAVÍKUR
Nýbyggingar Landsbankans eru mikilvægur þáttur í að endurvekja miðbæinn sem miðstöð menningar, verslunar, þjónustu og íbúðabyggðar. Höfuðstöðvar Landsbankans slást í hóp meginbygginga borgarinnar ss. Seðlabanka, Hæstarétt, Þjóðmenningarhús, Þjóðleikhús, Stjórnarráðshús og síðast en ekki síst væntanleg endurbyggð hús á horni Lækjargötu og Austurstrætis. Að auki má nefna núverandi höfuðstöðvar Landsbankans, Listastafn Reykjavíkur, Borgarbókarsafn, Alþingishús og Ráðhús Reykjavíkur.
ARNARHÓLL
Arnarhóll er einn meginhluti grænnar tungu sem liðast um miðbæinn um Lækjargötu, Hallargarð og Hljómskálagarð. Í tillögunni er gert ráð fyrir að byggðar verði nýjar lágreistar byggingar norðan við Arnarhól til að afmarka hólinn betur og til skjólmyndunar. Byggingar þessar tengjast
Seðlabanka og mynda torg með honum. Auk þess er rifjuð upp gömul hugmynd um uppbyggingu Arnarhóls með sýningarhúsi byggðu inn í hólinn þar sem styttan af Ingólfi Arnarsyni stendur, hún hækkuð upp og færð upp á þak þess. Þar er verönd þar sem skoða má upplýsta styttuna og njóta útsýnisins til allra átta. Í húsinu er sögusýning um Ingólf og landnámið, ásamt kaffistofu eða veitingastað. Einnig eru lagðir nýir göngustígar um Arnarhól og byggð eru aðlaðandi dvalarsvæði úr grasi og grjóti umhverfis lítið svið á suð-vestur hlið hólsins. Þegar stórviðburðir eru, er Lækjagötu lokað og sett upp svið eins og gert er nú og Arnarhóllinn fær á sig mynd áhorfendasvæðis.
LÆKJARTORG
Lækjartorg gegnir veigamiklu hlutverki í miðbæ Reykjavíkur. Torgið er slagæð stórviðburða í borginni ásamt Lækjarbrekku og Arnarhóli. Suðurhlið Landsbankans að torginu er sólrík og kjörin til veitingasölu og dvalar utanhúss.
Tillaga okkar er að Lækjartorg sé endurbyggt og undir því byggt skemmti- og vísindaver. Inngangar undir torg eru frá nýbyggingu Landsbanka og frá endurgerðum byggingum á horni Lækjargötu og Austurstrætis. Ljósop eru á torgi niður í vísindagarð sem gefa torginu draumkennda birtu að kvöldlagi.
LANDSBANKINN – NÝAR HÖFUÐSTÖÐVAR
Byggingasamstæðan er mynduð af tveimur 6 hæða klösum sem tengjast saman um innrými á götuhæð. Klasarnir tengjast einnig með glergöngum á 2. – 5. hæð.
Eystri klasinn er höfuðbygging Landsbankans um 21000 m² að stærð, með innrými undir glerþaki. Ljósið flæðir niður og gefur bjartar stórar vinnuhæðir. Notuð er nátturúleg loftun þar sem loft er dregið inn á hæðirnar og upp um miðrými. Sérstök áhersla er lögð á að hver starfsmaður, óháð því hvort hann starfar í stórri deild eða lítilli, í framvarðasveit bankans, bakvinnslu, stoðdeildum eða annars staðar skynji sig á hverjum degi sem virkan þátttakanda í einni sterkri liðsheild. Hönnun hússins hámarkar möguleikana til þess að stækka eða minnka deildir, færa þær á milli hæða eða jafnvel bygginga þegar fram í sækir án þess að vinnuumhverfið breytist mikið eða tengslin við ljósgjána í miðju hússins og um leið hjartslátt þess rofni.
Innrýmið hefur einnig þann tilgang að starfsmenn geta séð á milli hæða og upplifað sig sem hluta af heild en ekki einstaklinga í stóru fyrirtæki einangraðir við eina hæð.
Í vestari klasanum eru verslanir, þjónusta, íbúðir og skrifstofur. Á tveimur neðstu hæðum, auk kjallara, er gert ráð fyrir deildaverslun (búð í búð) með opnu rými milli hæða. Á þrjá vegu, á 3.-5.hæð er gert ráð fyrir glæsilegum íbúðum með aðkomu um þakgarð á 3. hæð. Á 3. – 5. hæð austan megin (að göngugötu) er gert er ráð fyrir stækkun bankans eða húsnæði til tímabundinnar útleigu.
INNRA SKIPULAG
Á fyrstu hæð aðalbyggingar er gert ráð fyrir fjölbreyttri starfsemi með iðandi mannlífi. Hún er hluti göngusvæðis frá Tjörn að Tónlistarhúsi með verslunum, þjónustu og uppákomum. Götuhæðin er gólf borgarinnar, mótandi og þátttakandi í daglegu lífi í hennar. Hér er útibú bankans og matsalur, móttaka fyrir efri hæðir, bókabúð, netkaffi, verslun með íslenska hönnun ofl.. Rýmið flýtur yfir í göngugötu og inn í meira hefðbundanar verslanir með ma. tískuvöru vestan göngugötu.
Við Lækjartorgið er kaffihús og sérstakar lyftur og stigi upp á efri hæðir suðurhluta byggingarinnar. Hér eru listaverk bankans til sýnis, auk þess sem gott rými er fyrir listsýningar af ýmsu tagi.
Aðgangsstýrð stigahús og lyftur loka af meginstarfsemi bankans á efri hæðum. Hringlaga skipulag hæðanna auðveldar tengsl milli deilda og eykur sveigjanleika. Með því er mögulegt að skipta rýmum á hagkvæman hátt og fyrirbyggja óþarfa umferð um hæðirnar.
EFNISVAL
Núverandi höfuðstöðvar bankans eru eitt af fáum dæmum um klassíska byggingarlist í Reykjavík. Við leggjum áherslu á að nýr banki sé í senn númtímalegur og klassískur, með efnisvali dagsins í dag án þess að missa sjónar á fortíðinni.
Við byggingu í þessum gæðaflokki er sjálfsagt og eðlilegt að beitt sé ítrustu tækni til að gera hana sem þægilegasta fyrir starfsfólk og gesti. Hin opnu rými kalla á sérstakar lausnir varðandi efnisnotkun innanhúss, hljóðvist, aðgengi að tæknibúnaði, sólskermun og loftræsingu. Sólarálag á suður- og austurhlið er mikið og krefst sérstakra lausna.
Burðarkerfi húsanna er að mestu steinsteypa, steyptar súlur og steypt gólf. Salerniskjarnar eru steinsteyptir til stífingar, en að öðru leyti er húsið opið og bjart. Neðsta hæðin er opin og létt, að mestu gler og svífur húsið yfir henni. Útveggur efri hæða er að öðru leyti reitaður niður og ýmist klæddur gleri í mismunandi ljósum lit (hvítur að glærum) eða ljósum trefjasteyptum einingum sem festar eru í burðarkerfi úr áli og stáli. Leitast er við að yfirborð glers og steins að utan sé sem samfelldast með póstalausri lausn og innbyggðum ósýnilegum opnanlegum fögum.
Tveggja þrepa samkeppni. 3. verðlaun