Flýtilyklar
Menningarhús og kirkja, Mosfellsbæ
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar og Sóknarnefnd Lágafellssóknar efndu í janúar 2009 til samkeppni um hönnun á menningarhúsi og kirkju í miðbæ Mosfellsbæjar. Úrslit voru kunngerð 16. júní 2009
Samkeppnissvæðið er innan miðbæjarskipulags og setur kirkju og menningarhús, eins konar Háborg, í tengsl við miðbæ og framtíðar uppbyggingu miðbæjarins. Mikilvægt er samspil við Bæjartorgið til norðurs og Urðirnar til vesturs.
Hið nána sambýli kirkju og menningarhúss setur óneitanlega sérstakan svip á umgjörð kirkjunnar og skipar henni annan sess en hefðbundnum sóknarkirkjum. Kirkjan er að sumu leyti tekin af stalli sínum og starfsemi hennar blandast annarri menningu og afþreyingu í bænum. Þetta er jákvætt, en krefst vissulega opins hugarfars og kannski nýrrar hugsunar. Það er mikilvægt að sambýlið sé á jafnréttisgrundvelli og að hver eining fyrir sig finni styrk af því.
Markmiðið er að byggingin sé látlaus með ljósu hlýlegu yfirbragði. Þök eru klædd þakdúk og gras með úthagatorfi og holtagrjót notað sem farg nema á kirkjuskipi sem er steinsteypt með hvítri steypu með íblönduðum glerkristöllum sem gefa kirkjuskipinu örlítið glitrandi áferð í birtunni. Grasið er tákn um sjálfbærni og hugsanagang í anda umhverfisverndar.
Tillaga í almennri framkvæmdasamkeppni um menningarhús og kirkju í Mosfellsbæ, 2. verðlaun