Miðbær Selfoss

MARKMIÐ er að miðbær Selfoss:
• verði miðbær Suðurlands, með öflugri verslun og þjónustu á sem flestum sviðum sem geti þjónað öllu Suðurlandi
• verði vettvangur iðandi mannlífs sem laði að íbúa og ferðamenn og bjóði jafnframt upp á aðstöðu fyrir fjölmennar samkomur
• sameini manneskjuvænt og hlýlegt umhverfi, með skilvirkum samgöngum og hagkvæmni fyrir rekstraraðila sem þar eru
• verði miðkjarni Selfoss, sem eigi ríkan þátt í að styrkja sjálfsímynd bæjarins og bæjarbúa • verði byggður upp á þeim forsendum sem fyrir eru, út frá legu, tengingum innan og utanbæjar, atvinnustarfsemi innan hans og þörfum hvers og eins fyrir þjónustu og afþreyingu • bjóði upp á heilbrigðan og umhverfisvænan lífsstíl
• verði hagkvæmur í uppbyggingu m.t.t. mögulegrar áfangaskiptingar og mismunandi eignarhalds lóða

Núverandi miðbær Selfoss er helsta miðstöð verslunar og þjónustu á Suðurlandi. Miðbærinn er hjartað sem slær í hverju bæjarfélagi og staðurinn sem bæjarbúar vilja gjarnan vera stoltir af. Miðbær einkennist af lífi en til að svo geti orðið þarf í miðbæ að vera starfsemi sem laðar fólk að og glæðir miðbæinn lífi og íbúðir til að gefa miðbænum líf á kvöldin og um helgar. Einnig þurfa dvalar- og göngusvæði miðbæjar að vera í skjóli gagnvart ríkjandi vindáttum og liggja vel við sól. Miðbærinn á Selfossi getur auk þess verið áningarstaður fyrir alla þá ferðamenn sem eiga leið um suðurland og alla þá sumarhúsagesti sem eiga leið um Selfoss. Miklir möguleikar eru fyrir bæjarbúa og íbúa sveitarfélagsins alls, auk gesta /ferðamanna, að njóta samveru bæði á torgi og í garði. Áhersla er á að gefa svæðinu í heild grænt yfirbragð, kvaðir eru um trjágróður meðfram vistgötu, inni á bílastæðum og meðfram gönguleiðum og bílastæði skulu vera með grænu yfirbragði. Lögð er áhersla á öryggi gangandi og hjólandi með sér afmörkuðum stígum og öryggi gagnvart umferð jafnt eldra fólks sem yngra, fatlaðra sem ófatlaðra. Miðbærinn er vel afmarkaður og bíður upp á fjölbreytta afþreyingu. Lögð er áhersla á skjólmyndun og að bæði dvalarsvæði og íbúðir liggi vel við sól.

ÁRTORG
Mikilvægt er að torgið geti orðið sá miðpunktur í bænum sem lagt er upp með og til þess að það geti orðið er nauðsynlegt að staðsetja við torgið starfsemi sem dregur fólk að og skapar lífvænlegt umhverfi. Gera þarf ráð fyrir að á torginu eða svæðinu frá torgi að garði geti verið markaður, hoppukastali, trampolin, sýningar listamanna, uppákomur tónlistarmanna o.fl. Nauðsynlegt er að á torginu sé alltaf eitthvað að gerast allavega yfir sumartímann, til að laða fólk að. Auk þess gætu rútur með ferðamenn staldrað við og hjálpað til með að auka líf á torginu. Á efri hæðum húsanna sem liggja við miðbæinn eru ýmist skrifstofur og þjónustustofnanir eða íbúðir og gefa kvöldstemmingunni við torgið annað yfirbragð en starfsemi sem er lokuð á kvöldin, t.d. með upplýstum gluggum.

ALMENNINGSGARÐUR OG GRÆN SVÆÐI
Í miðbæ þurfa að vera bæði torg og garður og gott er ef hægt er að tengja það saman og nýta sem eitt svæði t.d. á 17. júní og við aðrar stærri uppákomur. Torg og garður eru hluti af miðbænum. Mikilvægt er að innrétta og útfæra torgið og garðinn þannig að fólk staldri þar við, geti sest niður og að börn geti leikið sér. Ýmis gróður gefur torginu skjól og hlýlegt yfirbragð og vatn er alltaf mjög vinsælt. Almenningsgarður er utan afmörkunar deiliskipulagssvæðisins og ekki til staðfestingar nú en tengist óhjákvæmilega miðbænum sem “miðbæjargarður”. Eins og áður hefur verið komið inn á skulu garður og torg mynda eitt svæði þar sem gróður og grænt yfirbragð eykst þegar nær dregur garði. Hægt verður að nýta þessi svæði saman og í sitt hvoru lagi eftir óskum hvers og eins. Mikilvægt er að almenningsgarður og torg hafi aðdráttarafl vegna einhverrar sérstöðu, að aðgengi sé gott fyrir alla, unga og aldna. Svæðið má gjarnan hafa yfirbragð einhverrar blöndu af almenningsgarði, grasagarði og leikjagarði en þó á óhefðbundinn hátt og í þeim tilgangi að vera góð afþreying.

UMFERÐ
Bílaumferð á svæðinu miðast við 15 km gönguhraðaumferð og ríkulega séð fyrir því að ökumenn séu minntir á að þeir eru að keyra í gegnum torg þar sem gangandi og hjólandi hafa forgang. Aksturshluti götunnar skal lagður malbiki til að hljóðmengun verði sem minnst. Á svæðinu er gert ráð fyrir 2-4 stæðum fyrir almenningsvagna “strætó” og rútur. Mjög mikilvægt er að almenningssamgöngur séu góðar inn á svæðið sem valkostur við einkabílinn og minnka þörfina á að á bílastæðum. Áætlunarbílar aka til og frá Reykjavík, Eyrabakka, Stokkseyri, og Þorlákshafnar, auk áætlunarferða til ýmissa vinsælla ferðamannastaða í nágrenninnu s.s. Gullfoss og Geysi, Þórsmörk, Landmannalauga, Skaftafell o.fl. og má gera ráð fyrir að rútur með ferðamenn stoppi við torgið, sérstaklega ef torgið og umhverfi þess er aðlaðandi og býður upp á fjölbreytta þjónustu.

ÍBÚÐIR Á MIÐBÆJARSVÆÐI
Allar íbúðir skulu hafa hljóðlátari hlið, bæði vegna umferðarhávaða og mögulegra truflana frá starfsemi sem hefur langan opnunartíma, eins og t.d. veitingastaðir. Gæta skal sérstaklega að hljóðeinangrun íbúða frá atvinnustarfsemi. Íbúðir sem ekki hafa beint aðgengi að garðrými, skulu hafa aðgengi að garði gegnum stigahús.

STARFSEMI VIÐ TORG
Leggja skal upp úr fjölbreyttri starfsemi sem hefur einhvers konar afþreyingargildi, á jarðhæðum húsa við Torgið. Minni verslanir, veitingastaðir / kaffihús, menningarstarfsemi, bókasafn, samgöngumiðstöð og ýmis þjónusta fyrir ferðamenn skal hafa forgang.

2008

Deiliskipulag miðbæjar Selfoss, byggt á 1. verðlauna tillögu opinnar samkeppni.

Meira...


Svæði