Flýtilyklar
Reykjanesbraut , þverun, uppbygging og tengingar í Smára
Inngangur
Samkeppnissvæðið, sem er eitt öflugasta þjónustusvæði landsins, er skilgreint sem svæðiskjarni. Hann þjónustar ekki bara næstu bæjarhluta heldur allt höfðuborgarsvæðið. Svæðið í dag hefur yfirbragð bílaborgar, með stórum umferðaræðum og bílastæðaflákum. Svæðið er því mjög örðugt yfirferðar fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Heildarsvæðið skiptist í raun niður í sex minni eyjar með torfærum tengingum og eru því nánast ófærar fyrir virka ferðamáta. Reykjanesbrautin er, sökum legu og stærðar, stór hindrun tenginga á milli svæða.
Með fólksfjölgun og aukinni þéttbýlismyndun á höfuðborgarsvæðinu er mikilvægt að nýta landið vel. Með því að setja fjölfarnar stofnæðar í stokka tengjum við byggðina í eina heild, en fáum í kaupbæti aukið byggingarland og lífsgæði vegna grænna yfirbragðs, betri hljóðvistar og minni mengunar.
Samgöngur
Tillagan gerir ráð fyrir að umferð um Reykjanesbraut fari í stokk en stærstur hluti hennar er á leið norður/suður og á ekki erindi inn á svæðið. Fífuhvammsvegur og Skógarlind, sem í dag liggja undir Reykjanesbraut, eru færðar upp á stokkinn og verða hluti megingatna á yfirborði. Haga-, Hlíða-, og Hólasmári framlengjast að Álalind ásamt nýjum götum, Heimasmára sem liggur ofaná stokknum og götum A, B, C og D sem liggja austur-vestur. Með stokklausninni myndast stórt svæði á yfirborði sem tengir Smára- og Glaðheimasvæði. Þannig er stutt við skapandi umhverfi sem styrkir virka ferðamáta og gerir svæðið að öflugri samhangandi einingu.
Verslunarmiðstöðin Smáralind mun ávallt kalla á mikla umferð akandi og mikilvægt að aðkoma sé greið og augljós. Aðkoma að Smáralind frá Reykjanesbraut úr norðri er um sérakrein í stokki sem tengist Fífuhvammsvegi eða beint inn í bílastæði og núverandi aðalinngang Smáralindar. Aðkoma úr suðri á yfirborði er um núverandi hringtorg á Arnarnesvegi og um Smárahvammsveg en úr stokki um aðrein rétt norðan við verslunarmiðstöð í Lindunum . Aðkoma úr austur- og vesturátt er um Fífuhvammsveg. Leiðin frá Smáralind til norðurs er um Fífuhvammsveg, um hringtorg við Lindarveg sem er framlengdur að Reykjanesbraut. Stysta leið frá Smáralind í suðurátt er um aðrein frá Fífuhvammsvegi að stokki norðan Kópavogstorgs.
Smáralind
Smáralind er og verður áfram ein megin verslunarmiðstöð svæðisins og raunar höfuðborgarsvæðisins alls. Með því að byggja þétt upp að og í kring um verslunarmiðstöðina verður hún hluti umhverfis í stað þess að vera eins konar eyðieyja á bílastæði eins og slík mannvirki eru í dag. Með breyttum verslunarháttum mun byggingin auðveldlega aðlagast og verða miðstöð verslunar, þjónustu og afþreyingu fyrir allt svæðið. Hún mun því gegna megin hlutverki í byggðinni um ófyrirséða framtíð.
Torgin
Torg verða aldrei torg nema þau séu fóðruð af umhverfinu sínu. Fjöldi torga eru á svæðinu þar sem Kópavogstorgið er megintorgið, hjartað í byggðinni með iðandi mannlífi. Hér eru gatnamót með Borgarlínu, svokölluð kjarnastöð. Hér liggja leiðir milli Seltjarnarness og Salahverfis, Fjarðar og Vogabyggðar. Ekki má gleyma lestinni frá Keflavíkurflugvelli og nýjum flugvelli í Hvassashrauni. Aðkoma að lestarstöð er um stigahús og lyftur á miðju torgi en sjálf tengistöðin er þar sem nú er aðalinngangur Smáralindar á neðri hæð.
Smáravöllur er einskonar Austurvöllur svæðisins. Þarna er gott pláss fyrir stórar og smáar útisamkomur, leiktæki o.fl. í góðum tengslum við Vetrargarðinn og margvíslega þjónustu Smáralindar
Minni torg eru víða um svæðið, Smáratorg, Litla torg, Glaðatorg við verslunarmiðstöðina í Lindum og Safnatorg þar sem nú eru ÁG húsgögn, sem við stingum upp á að verði gert að húsgagnasafni með kaffihúsi.
Byggðin
Byggðin er þéttust, hæst og mest blönduð, miðsvæðis í nágrenni Kópavogstorgs við kjarnastöð Borgarlínu. Sunnar og í áttina að Hnoðraholti tekur við meiri íbúðabyggð. Áhersla er lögð á fjölbreytni í íbúðagerðum, fjölbýli í bland við sérbýli (raðhús). Gert er ráð fyrir að íbúðabyggðin sé að jafnaði 3-5 hæðir en einstaka byggingar standa upp úr, aðalega miðsvæðis í nágrenni Borgartorgs. Torgið, ásamt turnunum tveimur, í hvorum enda svæðisins mynda þannig sterk kennileiti. Mikil áhersla er lögð á gróður í almenningsrýmum milli húsanna og á þökum þeirra. Stutt er í skóla, leikskóla, almenningssamgöngur, verslun og þjónustu sem er mikil innan svæðisins.
Bílastæðum Smáralindar er komið fyrir í bílastæðahúsum norðan og vestan við verslunarmiðstöðina. Bílastæðahús er norðan við Lindir verslunarkjarna einnig við Hæðasmára. Öll þessi bílastæðahús samnýtast íbúðabyggðinni allt um kring og þannig hægt að auka byggingarmagn í núverandi byggð, t.d. við Hólasmára í öllum bílastæðahúsum eru hjólageymslur á jarðhæð. Gert er ráð fyrir klifurjurtum og gróðri sem vex í gróðurkerjum á útveggjum þannig að þessi hús gætu orðið grænustu húsin í hverfinu. Þökin eru almenningsrými fyrir íþróttir og fleira.
Hæðarkóti Kópavogstorgs við Fífuhvammsveg er um 24 m, efri inngangur Smáralindar um 26 m, Turninn við Smáratorg 24 m, Lindir verslunarmiðstöð 23 m og Bæjarlind 6 25,5 m. Þessi kótasetning þýðir að yfirborðið sem tengir byggðina er nánast lárétt og því þægileg fyrir virka ferðamáta.
Auðvelt er að áfangaskipta uppbyggingu. Glaðheimahlutinn er heppilegur fyrsti áfangi og annar áfangi þar sem Borgarlínan fer um svæðið. Gott athafnarými er umhverfis Reykjanesbraut þannig að ekki ættu að vera miklar raskanir á meðan á framkvæmdum við stokkinn stendur. Kjallaraveggir húsanna mynda ytri brún stokks og gerir hann hagkvæmari en ella.
Framtíðaruppbygging
Á svæðinu á milli Dalvegar og Reykjansbrautar er mikið um léttar byggingar. Það er heppilegt þróunarsvæði til framtíðar og gerir tillagan ráð fyrir að byggingar við Smáratorg verði fluttar og endurreistar á nýjum stað en í stað þeirra komi þétt, blönduð byggð. Svæðið er mjög verðmætt og nánast við hliðina á kjarnastöðvar Borgarlínu.
Umhverfismál
Aukin hlutdeild vistvænna samgangna, blágrænna ofanlausna, fjölbreyttra og vel skilgreindra dvalarsvæða. Aukin áhersla á gæði almenningsrýma og stígakerfa eru hluti af mótvægisaðgerðum vegna loftslagsmála og um leið liður í bættri lýðheilsu. Gróðurþök og gróðurveggir verða hluti af blágrænum ofanvatnslausnum. Gert er ráð fyrir aðstöðu til flokkunar og endurvinnslu, reitum til ræktunar og moltugerðar t.d. fyrir íbúa, rekstraraðila veitingastaða og fl.
Stærðir og magn
Tillagan gerir ráð fyrir um 490.000 m² nýbygginga sem skiptast í 70 % íbúðarhúsnæðis og 30 % atvinnuhúsnæðis. Við gerum því ráð fyrir um 3700 íbúðum (90 m² meðalíbúð) og 150.000 m² atvinnuhúsnæðis. Bílastæðahús eru um 100.000 m² fyrir ca. 3.000 bíla.
Nýtt byggingarmagn 490.000 m²
Núv. byggingarmagn 110.000 m²
Alls 600.000 m²
Bílageymslur (3000 bílar) 100.000 m²
Samtals 700.000 m²
NHL með bílageymslum 1.6
NHL án bílageymslna 1.4
Íbúðir fjöldi (90 m² meðalíb.) 3700
Íbúðir (70%) 340.000 m²
Atvinna (30%) 150.000 m²
ASK arkitektar tóku þátt í hugmyndasamkeppni um Reykjanesbraut og svæðiskjarna í Smára, þverun, uppbyggingu og tengingar.
Tillagan var valin til 1. verðlauna.