Flýtilyklar
Samkeppni um skipulag Stjórnarráðsreits
Inngangur
Það er við hæfi á 100 ára afmæli fullveldis Íslands að hugað sé að stefnu til framtíðar um húsnæðismál Stjórnarráðs lýðveldisins. Skynsamleg umgjörð stjórnsýslunnar skapar frekari tækifæri samráðs og samvinnu innan hennar. Stjórnsýsla á einum stað, í hjarta höfuðborgarinnar, gefur henni sjálfsmynd sem verður skírari í augum almennings og starfsfólks. Það hefur legið fyrir í áratugi að stjórnarráðið muni byggja upp á þessum stað, sem gengið hefur undir nafninu „Stjórnarráðsreiturinn“ en við viljum frekar kalla „Sölvhólsreit“, með tilvísun í Sölvhól sem frá 1730 var býli á Arnarhólstúni.
Heildalausn skipulags á reitnum
Við viljum skapa framsækið borgarumhverfi sem hæfir þeirri starfsemi sem þar fer fram. Við viljum að aðgengi almennings sé gott, en um uppfylla þær öryggiskröfur sem gerðar eru til starfsemi af þessu tagi. Við framlengjum Skuggasundið niður að Skúlagötu og skiptum þannig reitnum í fjóra meginreiti til að auka aðgengi og fanga kvarða umhverfisins. Með framlengingu Skuggasunds opnast tveir sjónásar; annars vegar norður til sjávar og Esju og hins vegar til suðurs að Þjóðleikhústurni.
Allar núverandi byggingar á reitnum standa óhreyfðar, að undanskyldri lágbyggingu við Skuggasund 3. Í sumum verður starfsemi óbreytt og aðrar fá nýtt hlutverk.
Áhersla lögð á að svæðið dragi ekki aðeins til sín þá sem eiga þangað beint erindi, heldur einnig þá sem velja að fara um svæðið á leið sinni annað, fara á veitingastaði á svæðinu eða velja að koma hingað án þess að eiga sérstakt erindi.
Svæði á milli Skúlagötu og Sæbrautar má nýta fyrir lágbyggingar tengdum Stjórnarráði, s.s. fyrir sorpgeymslu sem vegna öryggis verður að vera í ákveðinni fjarlægt frá byggingum, aðstöðu fyrir deilibíla, ráðherrabíla, öryggisverði ofl.
Reitur A - Stjórnarráðsreitur
Torgið er hjarta svæðisins og tengir alla byggingarreiti. Við torgið er aðalinngangur Stjórnarráðs, inngangur í hátíðarsal, veitingahús og önnur lifandi starfsemi. Hugmynd er að á torginu sé lágstemmt vatnslistaverk með tilvísun í Móakotslind, sem áður var helsta vatnsból Skuggahverfis.
Inngangur í Stjórnarráðið tengist flestum ráðuneytum. Stjórnarráðsreiturinn er byggður umhverfis garð með núverandi Sjávarútvegshús í öndvegi til norðurs. Á jarðhæð, í gömlu rannsóknarstofunum með ofanljósi, gerum við ráð fyrir mötuneyti Stjórnarráðs. Opnað er út í inngarð, sem lokaður er almennri umferð. Tengingar innanhúss eru greiðar um allar byggingar um miðhús. Gert er ráð fyrir aðkomu ráðherrabíla innan garðs sem annars er lokaður með hliði. Þar komast ráðherrar beint í bíla sína, eða frá öðrum inngöngum sem eru víða á reitunum.
Reitur B – Dómstólareitur
Dómstólar fá aðstöðu í reit B. Þar eru að miklu leyti eldri byggingar, en við gerum ráð fyrir nýbyggingu að Arnarhóli með aðalinngangi. Reiturinn er í aðalatriðum lokaður almennri umferð, en austurhluti hans getur rúmað aðra tengda starfsemi og er opnari. Við gerum ráð fyrir að eldra hús Hæstaréttar við Lindargötu verði varðveitt og því breytt í safn tengdu lögmennsku á Íslandi í hundrað ár. Óskandi að litlu svið Þjóleikhússins verði áfram á sínum stað. Það skapar líf að kvöldlagi og dregur fólk að reitum sem kannski eru þar ekki daglegir gestir. Lokaður inngarður dómstólareits er með samhverf form sem sækja innblástur í klassískan byggingarstíl, klippt hekk og snyrtar flatir sem kallast á við formfestu dómsstólanna.
Reitur C – Stjórnsýsla
Reitur C er forvitnilegur fyrir margar sakir. Hann er hugsaður fyrir ýmis konar stjórnsýslu. Hér gefa húsin við Lindargötu 9 og Klapparstígur 12 tóninn. Á reitnum eru nú timburhús, smágerðir garðar og torg með yfirbragði fínni hverfa í Reykjavík við upphaf 20. aldar. Reiturinn er byggður upp með smærri byggingum, gömlum og nýjum. Hér má sjá glaðlega liti og hugsanlega skírskotun í litapalettu Dagsbrúnarhúss við Lindargötu. Hér mætti gjarnan vera íbúðabyggð, hugsanlega tengd stjórnsýslunni, minni veitingastaðir og lifandi jarðhæðir. Hér er yfirbragð Skuggahverfisins hins gamla brætt saman við eldri byggð í nágrenninu.
Reitur D – Stjórnsýsla
Á reit D er gamla Landsmiðjuhúsið í öndvegi. Reitur D veit að aðaltorgi og þar gerum við ráð fyrir megin veitingastað Sölvhólsreits. Hér hittast starfsmenn Stjórnarráðs og aðrir meðborgarar óformlega í afslöppuðu umhverfi. Á reit D er Klöpp, bílageymsluhús Sölvhólsreits. Suður- og vesturhliðar Klappar er þaknir gróðri sem eru einkennistegundir fyrir skriðu- og klettavistgerðir (burnirót, beitilyng, bergsteinbrjótur). Á efstu hæð bílahúss er gert ráð fyrir almennu útsýnissvæði, gjarnan með veitingum. Gert er ráð fyrir lifandi jarðhæðum sem víðast á þessum reit.