Smáralind, Kópavogi

Forsaga
Segja má að byggingarsögu Smáralindar megi rekja allt aftur til ársins 1994 þegar Byggingarfélag Gunnars og Gylfa (BYGG) bauð þremur arkitektastofum að gera samanburðartillögur að lítilli verslunarmiðstöð í norð-vesturhorni núverandi lóðar Smáralindar. Tillögur voru gerðar að 2500 m2 byggingu sem átti að hýsa stóra matvöruverslun ásamt nokkrum smærri verslunum. Tillaga ASK var valin til frekari vinnslu sem þegar var hafist handa við. Smám saman stækkaði húsið í meðförum, ma. vegna þess að BYGG tryggði sér stærra landsvæði. Frá um 2500 m2 þróaðist byggingin í skrefum allt upp í um 20000 m2. Þegar þar var komið í stærðum þótti aðstandendum verkefnins sem full ástæða væri að staldra við og huga betur að öðrum hliðum verkefnsins en þeim sem lutu beint að byggingu húss. Í framhaldi af því var Pálmi Kristinsson núverandi framkvæmdastjóri Smáralindar ráðinn að verkefninu og í framhaldinu var stofnað hlutafélag um verkefnið sem fljótlega fékk nafnið Smáralind. Nú fór í hönd 2-3ja ára tímabil þar sem meginþungi vinnunnar við verkefnið var við markaðs- og viðskiptamál. Ýmsir erlendir fagaðilar komu að þeirri vinnu, þám. breska arkitekta- og verkfræðifyrirtækið Building Design Partnership (BDP) sem hefur yfir að ráða sérþekkingu í hönnun verslunarhúsnæðis og hefur hannað stórar verslunarmiðstöðvar víða um heim. ASK og BDP gerðu með sér samkomulag árið 1998 um samstarf við hönnun Smáralindar þannig að BDP leiddi hönnunarvinnuna við fyrsta þriðjung verkefnisins en ASK tók síðan við og leiddi verkefnið til loka. ASK sá um fullnaðarhönnun allra almenningsrýma en hönnun einstakra verslana, veitingastaða og kvikyndahúss var á vegum rekstraraðila þeirra.

Meginhugmyndir
Á seinni árum hefur orðið tilhneiging til að tengja ýmsa afþreyingu við það að versla og óskuðu eigendur Smárlindar þvi eftir að hönnuð yrði bygging þar sem þessir þættir yrðu nátengdir. Markmið okkar var að skapa eftir þessari forsögn byggingu sem væri í senn einföld og auðskiljanleg en hefði jafnframt í sér hreyfanleika til að mæta bæði hæðum í landi og stefnum í götum og byggðinni umhverfis. Enn fremur að forma hana með þeim hætti að þetta stóra hús félli vel að byggðinni í kring sem er blanda af íbúðum, verslunum og skrifstofum.

Starfsemin
Í Smáralind eru rúmlega 70 verslanir og veitingastaðir auk kvimyndahúss og barnaskemmtistaðar. Verslanir eru við tveggja hæða göngugötu þar sem er mjög opið milli hæða. Við vesturenda götunnar er deildaverslun Debehams á báðum hæðum en við austurenda er stórmarkaður Hagkaups á 1. hæð en á 2. hæð er Vetrargarðurinn, um 2000m2 yfirbyggt torg fyrir ýmsa starfsemi, ss. sýningar og tónleika. Kringum Vetrargarðinn eru veitingastaðir en ofan við þá er 1200 manna, 5 sala kvikmyndahús.

Aðkomuleiðir og lóð
Lóð og umferðarkerfi markast af þvi að halli er í landinu sem gerir að aðalinngangar hússins eru á 2. hæð að sunnanverðu en á 1. hæð að norðanverðu. Áhersla er lögð á að aðgengi að bílastæðum sé auðvelt og gott frá gatnakerfi bæjarins og einnig að skipulag bílastæða sé auðskilið. Bílastæði eru alls um 3000, flest á landi en við norð-austurhluta hússins eru þau á tveimur hæðum. Gert er ráð fyrir að í framtíðinni verði hægt að setja bílastæði í norð-vesturhorni sömuleiðis á tvær hæðir. Bílastæðum er skipt í fjóra hluta með bókstöfum og litum sem tengjast fjórum aðalingöngum hússins.
Aðkoma er frá öllum áttum þó meginaðkomuleiðir séu frá Hagasmára að sunnan og Fífuhvammsvegi að norðan. Stærstur hluti vöru- og þjónustuumferðar að húsinu er frá Smárahvammsvegi, um göng undir bílastæðum sunnan hússins. Afgangurinn er annað hvort beint inn í verslanir eða um þjónustuganga að þeim
Yfirborðsmeðhöndlun bílastæða er á flestum stöðum malbik án kantsteina, til að auðvelda hreinsun þeirra, en næst húsi eru gönguleiðir hellulagðar. Í Sumargarðinum sem er beinu framhaldi af Vetrargarðinum er meira lagt í landslagsmeðhöndlun með gróðri og steinhleðslum.

Húsið utan
Við formun hússins var lögð áhersla á að gefa því mýkt gagnvart byggðinni í kring, ma. með því að nota bogaform í þökum. Form hússins er þrískipt og endurspeglar sú skipting innra skipulag í húsinu. Þessir húshlutar taka upp stefnur í umhverfinu og þannig er vesturgafl hússins samhliða húsi Heilsugæslunnar og austurhliðin er samhliða Reykanesbrautinni en þarna á milli eru um 290 m.
Þar sem bílastæði eru flest á landi leiðir það af sér að húsið sjálft er sýnlegra en ef það væri rammað inn af bílgeymslum á fleiri hæðum. Því var lögð áhersla á að yfirborð veggja væri vandað og klæðning litheld. Veggir hússins eru klæddir með bláum emaleruðum stálplötum ásamt steinsteyptum veggjaeiningum næst jörðu á álagsflötum.
Þak hússins sem er um 25.000 m2 er mjög sýnilegt frá byggðinni í kring og var því lögð áhersla á að efnismeðhöndlun þess fengi ekki minna vægi en veggir. Notuð er klæðning úr læstum álpanelum í heilum lengdum.
Turninn við austuhlið Vetrargarðsins gegnir fyrst og fremst því hlutverki að vera kennileiti hússins. Innan í honum er komið fyrir ljósum sem baklýsa sandblásna glerfleti og geta þau skipt litum eftir fyrirframskilgreindu stillanlegu forriti.

Húsið innan
Verslunarmiðstöðvar eru mótaðar eftir mismunandi meginlínum, td. eftir því hvort um eina, tvær eða fleiri akkerisverslanir (anchor stores) er að ræða. Í Smáralind var ljóst frá upphafi að akkerisverslanir yrðu tvær og með það sem forsendu var húsinu valin línulaga lausn með beinni götu með Debenhams í vesturendann og Hagkaup við austurendann. Á 2. og 3. hæð austurendans er einnig Vetrargarðurinn sem er miðstöð afþreyingarhluta hússins.
Vestur og miðhluti hússins snýr sér "innávið", þe. almenningur ferðast í rými sem verslanir á allar hliðar mynda, en þjónustuhluti verslana liggur að útveggjum hússins. Yfir nánast öllu þessu rými er glerþak, um 2000 m2, sem hleypir mikilli dagsbirtu inn í húsið, alveg niður á neðri hæð götunnar þar sem mikið er opið milli hæða. Austurhlutinn eða Vetrargarðurinn snýr sér aftur "útávið" að umhverfinu. Þar er lítið af gleri í þaki en suð-austurhliðin er aftur öll úr gleri sem gerir að sjóntengsl við umhverfið eru góð.
Allt gler í húsinu er glært og án innbyggðrar sólvarnar. Þetta er gert til að dagsbirtan berist eins eðileg inn í húsið og kostur er og einnig til að innsýn í húsið verði sem best. Það á sérstaklega við um Vetrargarðinn sem liggur alveg upp að Reykjanesbrautinni. Til að hafa hemil á beinu sólarljósi eru notaðar rafdrifnar gardínur innan við glervegg í Vetrargarði en í þaki göngugötunnar er komið fyrir föstum skermum úr sígötuðu stáli neðan við glerflöt. Þeir gegna tvíþættu hlutverki, því fyrir utan að skerma sólaljósið utanfrá að deginum, fanga þeir rafljósið sem beint er að þeim á kvöldin og gefa þannig óbeina og mjúka lýsingu í göturýmið.
Miðað er við að lýsingarstig í götunni sé tiltölulega lágt, eða um 150 lúx, miðað við verslanir sem ekki er óalgengt að lýstar séu yfir 1000 lúx. Þetta, ásamt því að einungis er notaður hvítur litur á veggi og loft á verslunarsvæðum gerir að verslanirnar eru það sem draga að sér athyglina með sterkri lýsingu og litaflóru vörunnar sem til sölu er. Í afþreyingarhlutanum, Vetrargarðinum, er þessu hins vegar snúið við þar sem lýsingarstig er hærra og litir og efnisval er annað.
Framhliðar verslana sunnan megin götunnar mynda beina línu en norðan megin mynda þær bogalínu. Glerþak yfir götunni myndar einnig bogalínu en þó með öðrum radíus en götuhliðin neðan við. Í miðju götunnar er þversniðið samhverft en breytist þegar frá miðju dregur. Þetta gerir að götumyndin er síbreytileg eftir því hvar maður er staddur í götunni.
Gólf sameiginlega rýma eru lögð gegnheilum náttúrusteini, graníti í göngugötu og utan með jöðrum Vetrargarðsgólfs en miðsvæði þar er lagt sandsteinsafbrigði.
Tæknikerfi hússins eru mörg og fullkomin, má þar nefnda brunaviðvörunarkerfi, hljóðkerfi, aðgangskerfi, öryggiskerfi, fólkstalningarkerfi við innganga og fl. auk þess sem sólarrhringsvöktun er í húsinu.
Í götuna er blásið inn fersku lofti um lághraðaloftdreifara sem standa eins og "súlur" milli verslana. Þetta loft er síðan dregið út um "rifu" í veggklæningu ofan götunnar eða að því er hleypt út um opnanlega glugga í glerþaki. Í Vetrargarði er fersklofti hins vegar "skotið" niður frá lofti að gólfi og dregið til baka upp að lofti.
Burðarvirki eru af blönduðum toga. Útveggir eru staðsteyptir og einangraðir að utan, gólf eru úr forsteyptum bitum og holplötum í vestur- og miðhluta hússins en austurhlutinn er að mestum hluta staðsteyptur.
Brunavarnir eru umfangsmiklar og hafa það meginmarkmið að tryggja öryggi fólks og rýmingarleiðir þess ef hættu ber að höndum. Brunaviðvörunar- og vatnsúðakerfi er í öllu húsinu sem er skipt niður í þrjú megin brunasamstæður: vesturhluta, götuhluta ásamt Vetrargarði og kvikmyndahúsi og Hagkaup. Þessum brunahólfum er síðan skipt niður í fleiri reykhólf til að takmarka útbreiðslu reyks, td. í götunni þar sem sjá með tvo stóra glerveggi frá um 4m hæð og upp í glerþak. Í lofti neðri hæðar er komið fyrir leiðiskermum úr gleri en þeir hafa það hlutverk að leiða hugsanlegan reyk frá verslunum upp í reykhólfin fyrir ofan.

Lokaorð
Nú sjö árum eftir að BYGG lagði upp með undirbúning að 2500 m2 verslunarmiðstöð, stendur Smáralindin tilbúin, 61.500 m2 að stærð, eða nærri 25 sinnum stærri en forverinn. Þessi mikla viðbót verslunar- og afþreyingarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu er umrædd enda ljóst að Smáralind mun hafa umtalsverða hlutdeild í verslun landsmanna og einnig, ef vonir ganga eftir, að hún mun draga að sér viðskiptavini erlendis frá, enda var lagt upp með að Smáralind ætti að verða verslunar- og afþreyingarmiðstöð sem stæðist allan alþjóðlegan samanburð.
 
Helgi Már Halldórsson arkitek F.A.Í
verkefnisstjóri ASK
(greinin birtist í tímaritinu AVS 3/4 tlb. 2001)

2001

Verslunarmiðstöðin Smáralind í Kópavogi
Verslunarmiðstöð með yfir 70 verslunum, veitingahúsum, kvikmyndahúsi og fl.
Samstarf: BDP Building Design Parnership, London
Ljósmyndir: David Barbour/BDP
Viðurkenning Umhverfisnefndar Kópavogs 2002
Viðurkenning Ferlinefndar Kópavogs 2007

Meira...


Svæði