Sundlaug Hornafirði

Markmið framkvæmdarinnar.
Við uppbyggingu á íþróttasvæði milli Hafnarskóla og Heppuskóla var ákveðið að koma fyrir sundlaug og heitum pottum. Eldri laugin hafði þjónað sínum tilgangi vel en orðin gömul og lúin. Ákveðið var að finna lauginni stað við Heppuskóla og ganga þannig frá að afgreiðslusalur, búningsaðstaða o.fl. nýttist íþróttahúsinu. Markmið uppbyggingarinnar var að skapa aðstöðu til íþróttaiðkunar sem væri aðgengileg og hagkvæm. Ákveðið var að laugin yrði fjórar brautir í 25m útilaug. Heitir pottar yrðu tveir og annar þeirra iðupottur. Vaðlaug myndi vera með leiktækjum. Á seinni þrepum var ákveðið að bæta við þremur rennibrautum og auka þær töluvert á afþreyingargildi sundlaugarinnar fyrir alla aldurhópa. Einnig var haft að leiðarljósi að þegar byggingin væri fullbyggð myndi aðstaðan geta nýst þegar íþróttasalur Heppuskóla yrði notaður sem samkomusalur eins og t.d. við þorrablót og á sjómannadaginn.

Framkvæmdin.
Verkefninu er skipt upp í áfanga og var fyrsti áfangi tekin í notkun á sumardaginn fyrsta 2009. Til þessa áfanga telst sundlaugasvæðið með 25m laug, tveimur pottum og vaðlaug, auk rennibrauta. Sundlaugarhúsið hýsir afgreiðslusal, búningsherbergi með öllum þeim stoðrýmum sem sarfsemin þarfnast. Í fyrirhuguðum öðrum og þriðja áfanga er gert ráð fyrir innisundlaug, líkamsræktarstöð og annarri aðstöðu sem gæti samnýst Heppuskóla og sundlauginni.

Efnisval, útlit og aðlögun.
Staðsetning byggingarinnar er mjög miðsvæðis á Höfn og tengist Heppuskóla beint þegar hún stendur fullbúin. Íþróttasvæðið er umlukið íbúðarhúsum, smágerðum kvarða einbýlishúsa. Því var valin sú leið að tengjast þessum smákvarða í bænum en um leið að gera sundlaugasvæðið sýnilegt og aðlaðandi. Aðkomusvæðið er rúmgott og útbúið er grjótbeð með náttúrulegu grjóti með skófum og mosagróðri. Sem undirlag er notuð möl úr Slurvudal og er sú möl einnig notuð sem steining á steypta norðurvegginn. Í samspili við þessa klæðningu er tréklæðning úr sedrusviði. Saman skapa þau mildan brúntónalit á bygginguna. Í anddyri hússins er steinteppi þar sem steinarnir eru fengnir úr fjörunni utan við bæinn. Með þessari tilvísun í náttúruna allt í kring verður húsið hornfirskt að einhverju leyti og því sérstakt fyrir staðinn.

Helstu stærðir.
Laugarhúsið er í heild sinni um 970 fermetrar, þar af er tæknirými um 500 fermetrar. Fullbúið gæti mannvirkið verið um 2000 fermetrar en fullnaðarhönnun er ekki lokið.

2009

Inngangur

Meira...


Svæði