No items found.
Nýr Skerjafjörður
Nýr Skerjafjörður
Nýr Skerjafjörður

Nýr Skerjafjörður

ÁR:
Staðsetning:
Flokkur:
STAÐA:
STÆRÐ:
2017
Reykjavík
Skipulag
Í vinnslu

Í nýju aðalskipulagi er sleginn takturinn fyrir uppbyggingu Reykjavíkurborgar næstu áratugina. Þar kemur glögglega fram hvert við viljum stefna og hvaða meðul við ætlum að nota til að komast þangað. Þetta eru þó ekki bara áherslur okkar Reykvíkinga, eða Íslendinga, heldur eru þetta áherslur sem þekktar eru víðast á Vesturlöndum. Við þurfum að breyta um stefnu ef við viljum lifa af á jörðu okkar. Hugtök eins og loftlagsbreytingar, mengun, sóun, umferðartafir og sjálfbærni verða okkur æ tamari í munni, en við eigum kannski erfiðara með að takast á við þau og finna lausnir. Ekki nóg með það; við virðumst sjaldnast sammála um leiðirnar sem við þurfum að fara. Nýr Skerjafjörður er að sumu leyti tímamótaverkefni. Staðsetning hefur allt til að skipulag á þessu svæði geti verið leiðarljós fyrir þá uppbyggingu sem við sjáum fyrir okkur á næstu áratugum, á landi sem er eitt verðmætasta sem við borgarbúar höfum yfir að ráða. Við erum að brjóta nýtt land um leið og við þéttum og styrkjum byggðina sem fyrir er.

Rammaskipulag Graeme Massie hefur verið leiðarljós skipulags í Vatnsmýrinni um nokkurt skeið. Það er að nokkru okkar fyrirmynd, en við viljum brjóta það upp og hverfa frá hornréttum samgönguæðum og strangri randbyggð. Við viljum mýkri form, fjölbreyttari byggð og mildara yfirbragð. Við leggjum áherslu á blandaða byggð þó íbúðabyggð sé í forgangi eins og aðalskipulag gerir ráð fyrir. Með hliðsjón af staðsetningu við vinsæla núverandi byggð í Skerjafirði gerum ráð fyrir að ný byggð sæki yfirbragð til þorpsins. Með aukinni byggð í Skerjafirði verður einingin sjálfbærari, nýr grunnskóli og önnur þjónusta fær möguleika á að vaxa og dafna. Megin hugmyndin er reitaskipting þar sem á hverjum reit eru mismunandi byggingar í hæð og formi. Nálægð við ströndina gerir svæðið einstakt og nýtum við hana til að gefa byggðinni sérstöðu og sem tækifæri fyrir íbúa að njóta náttúru og frístunda nálægt heimili. Græna beltið sem liggur milli Reykjavíkurtjarnar og Skerjafjarðar opnar leið fyrir aðra íbúa borgarinnar að njóta þeirra gæða sem svæðið býður uppá. Við erum meðvituð um að við erum að byggja á flugvallarsvæði og teljum æskilegt að sú starfsemi finni sé stað í nýrri byggð. Hugsanlegt er að varðveita megi eitthvað af flugskýlum og koma upp vísi að flugsafni í Reykjavík. Ákjósanlegt er að tengja svæðið við verkefnið Reykjavík um snjalla borg (e. Smart City) með því að setja upp mæla og upplýsingaskjái til þess að auka umhverfisvitund hjá borgarbúum.